Forsíða Íþróttir Upphitun fyrir úrslitaleik Gulldeildarinnar – KF Frómas langar í meiri Gull bjór!

Upphitun fyrir úrslitaleik Gulldeildarinnar – KF Frómas langar í meiri Gull bjór!

KF FrómasÁ föstudaginn næstkomandi mun úrslitaleikurinn í Gulldeildinni fara fram á Leiknisvellinum í Breiðholti kl. 20:00. Þar munu leiða fram hesta sína lið Leiknari og KF Frómas.

Við heyrðum í KF Frómas – sem unnu Bikarinn í deildinni í sumar – og hvernig þeir eru stemmdir fyrir leikinn – en umfjöllun um Leiknari verður birt á morgun.

Einar Gunnarsson, markmaður og aðalvítamínsprauta liðsins varð fyrir svörum en röddin hans hljómaði ansi líkt öðrum leikmanni liðsins Benedikti Thorarensen. Furðulegasta mál allt saman.

Hvernig er stemningin fyrir leiknum?
Hún er gríðarlega góð – feykileg spenna í hópnum.

Hverju myndirðu þakka að þið hafið komist svona langt?
Samansafn af mönnum sem æfðu fótbolta – en hættu að geta eitthvað þegar komið var á stóran völl – og spila núna á lítinn völl.

Hættulegustu mennirnir í liðinu – eru það gamlar stjörnur?
Engar sérstakar stjörnur í liðinu – nema einn fyrrum unglingalandsliðsmaður – held að Hrólfur Örn með einn U-17 landsleik á bakinu. Hann er harður í horn að taka. Varnarjaxl.

Hver er búinn að halda uppi liðinu?
Bergur Dan miðjumaður.

Er hann að skora eins og Ronaldo?
Við vinnum enga leiki án hans. Menn þurfa að varast hann.

Hvernig er undirbúningi háttað?
Það er minna um  undirbúninginn.  Engar aukalega æfingar í gangi. Við spilum innanhúsbolta í íþróttasal Verslunarskólans og notum ekki venjulegan fótbolta heldur stóran gulan tennisbolta á æfingum. Fyrsta æfing vetursins var nýlega og tveir náðu að meiða sig – og allir búnir að missa touchið.

Hvernig hæpa menn sig upp fyrir úrslitaleikinn?
Það er kannski aðallega að bjórinn sem við unnum í bikarnum er búinn. Þannig núna þurfum við helst að fá meira.

Einhver sérstakur stuðningsmaður – kærasta sem peppar ykkur áfram?
Fyrrverandi leikmaður Pálmar Jónsson sem var langbesti maðurinn er mesti stuðningsmaðurinn okkar í dag – en hann sneri sér að því að þræða krár bæjarins og vakna á stöðum sem hann veit ekki hvar eru – en hann styður okkur áfram á hliðarlínunni. En neitar að spila.

Eruð þið með einhver skilaboð til Leiknari?
Vonast bara eftir skemmtilegu kvöldi þar sem betra liðið vinnur. Ætla ekki að reyna að hræða þá neitt.