Forsíða Hugur og Heilsa Svavar Knútur hvetur fólk til að PRÓFA lestrarviðmið barna – „Eiga þau...

Svavar Knútur hvetur fólk til að PRÓFA lestrarviðmið barna – „Eiga þau að geta lýst kappreiðum og haldið uppboð á sama tíma?“

Tónlistarmaðurinn Svavar Knútur setti þessa færslu á Facebook sem hefur fengið fólk til að gapa yfir lestrarviðmiðum barna.

Í færslunni þá hvetur hann fólk til að prófa þetta og sjá hvort þau geti lesið svona hratt.

Getur þú lesið á við lestrarviðmið 13 ára barna?

Má ég stinga svolitlu að ykkur?

Þetta eru lesfimiviðmið Menntamálastofnunar.
Samkvæmt þeim á helmingur sjö ára barna að geta lesið 85 orð á mínútu villulaust upphátt að vori. Prófið ef þið viljið að lesa á þeim hraða og ímyndið ykkur 7 ára barn að glíma við það í ólesnum texta.
Enn skemmtilegra er að 25% 13 ára barna eiga að geta lesið skýrt 210 orð á einni mínútu. Prófið að lesa 210 orð á einni mínútu. Það hljómar eins og endir á amerískri lyfjaauglýsingu. Gerum það auðveldara. Prófið að lesa 52 orð á 15 sekúndum. 50% 13 ára unglinga eiga að geta lesið upphátt 180 orð á mínútu. Þeir sem ekki ná því teljast undir markmiðum. Prófið að lesa 45 orð á 15 sekúndum skýrt og greinilega. Er það í alvöru markmið að 50% 13 ára barna eigi að geta lýst kappreiðum og haldið uppboð á sama tíma?

Næsta verkefni: Prófið að setja ykkur í spor barna hverra foreldrum er ítrekað sagt að þau séu ekki að ná máli í lestri. Foreldrarnir hafa áhyggjur og reyna og reyna að láta þau ná þessu máli með tilheyrandi streitu fyrir bæði börn og foreldra. 85 orðum á mínútu 7 ára, 180 orðum á mínútu 13 ára. Og það eru 50% viðmiðin.

Ég er hraðlæs. Mjög hraðlæs. Ég er ekki sérstaklega hraðtalandi, en ég bæti fyrir það með skýrleika. Ég rétt slefa upp í markmið 13 ára unglinga.

Það er eitthvað að þessu dæmi. Ég hvet fjölmiðla og kennara til að skoða þetta gagnrýnið.