Forsíða Lífið Súkkulaðigerðin Omnom og Borg brugghús eru með viðburð fyrir lengra komna sælkera!

Súkkulaðigerðin Omnom og Borg brugghús eru með viðburð fyrir lengra komna sælkera!

Á föstudaginn standa súkkulaðigerðin Omnom og Borg brugghús fyrir viðburði fyrir lengra komna sælkera þar sem þorrabjórar eru paraðir við mismunandi súkkulaðitegundir Omnom auk þess sem farið er yfir helstu þætti í súkkulaði- og bjórgerð.

Framleiðendurnir tveir hafa staðið fyrir reglulegum pörunarviðburðum á bjór og súkkulaði í vetur og er óhætt að segja að þeir hafi slegið í gegn.  Um er að ræða síðasta viðburðinn með þessu vöruvali þar sem þorrabjórar Borgar, sem nefnast Surtur, eru að hluta uppseldir:

“Surtur er þorrabjór Borgar sem kemur út í nýrri útgáfu ár hvert. Stíllinn er þó alltaf sá sami, þ.e.a.s. Imperial Stout, sem þýðir að hann er þeldökkur og rótsterkur, með góðu maltbakbeini. Það sem er sérstaklega skemmtilegt við þennan stíl er að þó hann sé alltaf dökkur og sterkur í grunninn, er hægt að fara margar mjög mismunandi áttir með hann. Þannig erum við að bjóða upp á útgáfur af honum þar sem ýmist súkkulaði, vanilla, reykt chili o.fl. er í forgrunni hverju sinni og er eitthvað af þeim þegar orðnar illfáanlegar.  Það er því gaman að geta boðið upp á alla línuna á föstudagskvöldið.” segir Hlynur Árnason bruggmeistari hjá Borg.

Viðburðurinn fer fram í Súkkulaðigerðinni hjá Omnom og gefst gestum kostur á að skoða framleiðslu þeirra og fræðast um töfraheima súkkulaðigerðar og bruggunar.  Þá er megin tilgangur viðburðarins að kenna fólki að njóta bjórs og súkkulaðis saman:

„Kvöldið fer þannig fram að bruggmeistarar Borgar og súkkulaðisnillingar Omnom hafa valið hvert súkkulaðið fyrir sig til að para með hverjum bjór. Þannig myndast tvær nálganir á pörunina þar sem við komum að hlutunum úr mjög mismunandi átt, Borg bjórmegin frá en Omnom súkkulaðimegin. Það skemmtilegasta við þetta er svo að á boðstólnum er ótakmarkað upplag aragrúa ljúffengra súkkulaðitegunda svo gestir geta fundið sitt uppáhaldssúkkulaði fyrir hvern bjór.  Við spjöllum svo um bjórgerð og súkkulaði og fáum að kynnast framleiðslu Omnom á áhugaverðan og upplýsandi hátt.“

Örfáir miðar eru eftir á viðburðinn og hægt er að nálgast þá á skrifstofum Omnom að Hólmaslóð 4.

Miðja