Forsíða Hugur og Heilsa Steinunn á ekki til orð yfir KRÖFUR samfélagsins – „Það er ekki...

Steinunn á ekki til orð yfir KRÖFUR samfélagsins – „Það er ekki tilviljun að kvíði og kulnun grassera sem aldrei fyrr“

Hún Steinunn Gestsdóttir setti þessa opnu færslu á Facebook þar sem hún lýsir yfir áhyggjum sínum á þeim kröfum sem hún og allir í kringum hana upplifa. 

Þetta virðast vera orð í tíma töluð miðað við hversu margir hafa deilt, skrifað ummæli við og líkað við færsluna hennar. 

Ég neita að trúa því að ég sé orðin svo mikill aumingi í seinni tíð að mér fallist hendur yfir þeim kröfum sem ég og allir í kringum mig upplifa. Svo ég ætla að halda því fram að kröfurnar hafi vaxið fáranlega og þær séu orðnar akkúrat það – fáránlegar.

Þú þarft ekki bara að vera í leikfimi – þú þarft að vera í formi eins og atvinnumaður.
Þú þarft ekki bara að vera í góðri vinnu – þú þarft að vera leiðtogi.
Þú þarft ekki bara að eiga börn – þau þurfa að vera framúrskarandi.
Þú þarft ekki bara að fara í frí – þú þarft að vera í Víetnam.
Þú þarft ekki bara að borða hollt – þú þarft að vera vegan.
Þú þarft ekki bara að vera vel menntuð/aður – þú þarft doktorspróf.
Þú þarft ekki bara að stunda útivist – þú þarft að vera landvættur.
Þú þarft ekki bara að eiga fallegt heimili – það þarf að fylgja nýjustu tískustraumum.
Ég nenni ekki einu sinni að tala um útlitskröfur – þær eru absúrd – ekkert verra virðist geta hent konu en að hún líti út fyrir að vera akkurat á þeim aldri sem hún raunverulega er.
Og samt alls ekki gleyma að njóta…. þér má ekki mistakast að njóta…

Ekki misskilja mig – þetta eru allt frábær markmið (nema útlitskröfurnar!) – en samanlegt… tja, það er ekki tilviljun að kvíði og kulnun grassera sem aldrei fyrr.

Ég á bara eitt ráð. Æfum okkur í að vera venjuleg. Jafnvel bara soldið hallærisleg. Gefum skít í kröfur sem við höfum sjálf búið til.

Þá er heillaráðum Steinunnar lokið. Lifið heil. En samt bara hæfilega heil. Ekki absúrd súper-heil.