Forsíða Lífið Rjúpnaveiðimenn ósáttir við FÁRÁNLEGT veiðifyrirkomulag – „Það er hægt að rökstyðja vitleysuna...

Rjúpnaveiðimenn ósáttir við FÁRÁNLEGT veiðifyrirkomulag – „Það er hægt að rökstyðja vitleysuna endalaust“ – MYNDBAND

Hann Kjartan Antonsson er einn af mörgum íslenskum rjúpnaveiðimönnum sem hefur kvartað undan veiðifyrirkomulaginu í ár.

Hér í þessu Facebook myndbandi sem hann hlóð upp og textanum sem fylgir með, fer hann yfir stöðu mála og sýnir fram á hversu fáránlegt þetta er.


Setti eftirfarandi inn á grúbbu sem heitir Skotveiðispjallið og varðar rjúpnaveiðar. Læt það flakka hérna líka þar sem margir af mínum vinum eru veiðimenn og eru kannski ekki þar

Það kallast sennilega að ausa í bakkafullan lækinn að starta enn einum þræðinum hér varðandi stjórnun rjúpnaveiða en læt samt vaða og reyni að vera stuttorður.

Fyrir allt of mörgum árum var sett á tilraunarbann við rjúpnaveiðum á nánast öllu suðvesturhorni landsins. Ef ég man rétt þá átti það upphaflega að vara í 3.ár. Reyndar var þetta sennilega kallað rannsóknarbann til að fegra málið. Þetta bann stendur enn og sennilega að nálgast 20.árin síðan það var sett á!

Tilvitnun í texta frá alþingi fyrir mörgum árum!

„Rannsóknin nær til þriggja ára og hún á að reyna að svara þessum spurningum, hvaða áhrif veiðimenn hafa á stofninn miðað við náttúruleg afföll. Niðurstöðurnar eiga að styrkja okkur í friðunaraðgerðum og þeim aðgerðum sem við viljum gjarnan fara í til þess að rjúpnastofninn bíði ekki skaða af.“

Þetta svæði hefur þrátt fyrir bann í mörg ár langoftast ef ekki oftast komið verst út í talningum. Ef veiðar hefðu slík áhrif eins og friðunarsinnar vildu meina á sínum tíma væri það löngu komið í ljós og suðvesturland ætti að vera pakkað af rjúpu. Svo er hinsvegar ekki og spurning hvað þeir þurfa mörg árin í viðbót til að rannsaka málið?

Veiðikortin eru sjálfsögð að mínu mati ef þeir peningarnir eru notaðir í þágu okkar veiðimanna með alvöru og óháðri vöktun stofna.

Veiðitölur, af hverju að skila inn tölum um veidda fugla þegar þær eru notaðar gegn okkur þrátt fyrir fögur fyrirheit?

Dæmi:
Ráðlagt er að veiði fari ekki yfir 60.000 fugla. Veiðimenn skila inn tölum og í ljós kemur að veiddir hafi verið 75.000 fuglar. þá er vitnað í það um leið þegar takmarka á veiðar þegar svo ber undir og það notað gegn okkur sem rökstuðningur að við séum að veiða of mikið!

Við eigum ekki að skila inn tölum svo hægt sé að meta veiðiþol, það er sitthvor hluturinn. Veiðiþol á að gefa út samkvæmt viðkomu stofna en ekki hvað var veitt í fyrra eða hitteðfyrra.

12.daga fyrirfram ákveðnir veiðidagar eru algjörlega út úr korti svo ekki sé tekið dýpra í árina.

Ef við tölum um álag á veiðistofna eins og rjúpu þá fara menn í stórum hópum um allt land á sama tíma yfir svæðin með tilheyrandi ágangi. Það er svona eins og þegar bændur smala fjöll og fá sem flesta til hjálpar svo það meigi ganga sem best.

Og að tala um að við veiðifólk séum að ganga svo nálægt stofninum er líka algjör firra! Lang stærsti hluti landsins er sjálf-friðaður fyrir rjúpnaveiði. Landið er einfaldlega þannig að á stórum hluta þess kemst enginn nema rjúpan fljúgandi!

Málið er einfalt. Fyrst var öll veiði bönnuð í 2.ár hversu bilað sem það kann að hljóma. Svo var veiði leyfð með takmörkunum eða heilum 18.dögum. Flestir bugtuðu sig og beygðu fyrir örlæti ráðherra og ekki síst vegna þess að ráðherra hafði stytt algjört bann um heilt ár.

Svo kom fljótlega í ljós hjá fólkinu sem situr á bak við skrifborð með enga eða litla tengingu við náttúruna að 18.dagar var of mikið, það yrði að stytta niður í 12.daga!

Enn voru veiðimenn ánægðir og þökkuðu fyrir að fá að veiða eitthvað. En svona virka allar friðanir, þessu er laumað inn smá saman og fáir segja neitt heldur þakka bara fyrir. En þó virðist vera komið nálagt þanmörkum hjá mörgum veiðimanninum í dag sem er gott. En hvað kemur út úr því er verra að spá fyrir um?

Það er hægt að rökstyðja vitleysuna endalaust svo ekki ætti stjórn Skotvís að skorta rök sem meira að segja umhverfisráðherra ætti að skilja og taka tillit til.

En þetta virðist bara vera sagan endalausa. Læt fylgja eitt myndband sem ég tók fyrir einhverjum árum á veiðislóð.

Sagðist ætla að vera stuttorður en þannig er það bara

En þið sem eruð sammála mér og ég er ekki einn um þessa skoðun meigið endilega deila þessu og hver veit nema það verði lóð á vogarskálina 

Miðja