Forsíða Lífið Ragnar skilur ekki af hverju leikskólakennaranum var vísað úr landi – „Góður...

Ragnar skilur ekki af hverju leikskólakennaranum var vísað úr landi – „Góður og gegn meðlimur þessa samfélags“

Hann Ragnar Pétur Pétursson getur ekki orða bundist eftir að leikskólakennari á leikskóla dóttur hans var vísað úr landi. 

Enda skilur hann ekki rökin á bakvið þessa ákvörðun:

Ég get ekki orða bundist.
Ég er svo svekktur yfir því þjóðfélagi sem við búum í. Þannig er mál með vexti að á leikskóla dóttur minnar hefur frá því í haust starfað útlend kona sem með yfirvegun og fagmennsku hefur hrifið alla með sér, ekki síst krakkana sem hún hefur verið með.
í gær barst okkur orðsending frá leikskólanum um að hún væri hætt að vinna í leikskólanum vegna þess að henni hafði verið vísað úr landi þar sem hún væri flóttamaður. Mér brá við þessa orðsendingu og fór að spyrjast fyrir um málið.
Hún komst til Íslands við illan leik, réð sig í vinnu og leigði íbúð, sótti ekki neina styrki til ríkis og var yfir höfuð góður og gegn meðlimur þessa samfélags, meðal annars með því að sinna starfi sem þykir erfitt að manna á Íslandi.
Hún hafði á undan því lent í því að barnið hennar slasaðist í Aleppo, Sýrlandi í sprengjuárás. Læknirinn sem annaðist þau sendi hana með pappíra og annað nauðsynlegt til að sækja lyf sem þurfti en ekki fengust í borginni, þar sem hún lendir í árásum og kemst ekki til baka til sonar síns, tapar öllum gögnum og er orðin flóttamaður.
Kemst við illan leik til Íslands til þess eins að vera hent eins og rusli af landi brott.

Við getum gert betur sem þjóð, það eru ekki margir flóttamenn sem hafa það af að komast hingað og við Íslendingar, ríkisstjórn og skrifræðið getum tekið betur en þetta á málum. Ég hef trú, trú á samkend, virðingu og því að mannkynið eigi að vera jafnt, og ef einhverjir eiga að vera fremri öðrum, þá eru það flóttamenn. Af auðmýkt segi ég, ég hef það gott og ég vil gjarnan deila því með þeim sem eiga um sárt að binda, því að þau eiga það svo sannarlega skilið.
Það bætir bara á vandann og eykur hann að senda fólk aftur til baka sem hefur þegar náð að koma sér fyrir og er farið að borga til samfélagsins.
Hugur minn er með þessari konu sem þarf að fara í flóttamannabúðir og hafa það skítt eftir að hafa unnið hér, borgað skatta og verið til fyrirmyndar í einu og öllu
Við Ríkisstjórn Íslands og ríkisbatteríið segi ég, skammist ykkar, hysjið upp um ykkur og breytið starfsháttum af því að það er ekkert mál. ÞAÐ ÞARF BARA VILJANN.

Miðja