Forsíða Lífið Pétur var nærri keyrður niður af ungri konu því hún var að...

Pétur var nærri keyrður niður af ungri konu því hún var að leika sér í símanum – MYNDIR

1380629_10151833664199230_256378836_nVið rákumst á frásögn Péturs á Facebook og fengum góðsfúslegt leyfi hans til að birta hana hér. Enda full ástæða til að deila henni og minna fólk á að það er alveg jafn hættulegt, jafnvel hættulegra að leika sér í snjallsímanum undir stýri og það er að tala í hann.

„Þegar ég hjólaði í vinnuna í dag sá ég unga stúlku koma akandi bíl á talsverðri ferð. Þar sem hún skaust fram hjá mér sá ég að hún var á jafnmikilli ferð með þumalinn á snjallsímanum sínum. Hvað er að? hugsaði ég og hélt leiðar minnar.

Á leiðinni heim um klukkan hálfsex lenti ég svo í lífsháska. Ég hjólaði upp stíginn sem liggur með fram Naustavegi á Akureyri. Þetta er vegurinn sem liggur fram hjá Skautahöllinni og upp í Naustahverfi.

Þegar stutt er eftir upp á brekkuna heyri ég mikla skruðninga og sé hvar fólksbíll tekur á loft og stefnir beint á mig. Þarna gengur vegrið ofan í jörðina og var eins og stökkbretti fyrir bílinn sem sveif tíu metra, lenti þá aftur á vegriðinu en fleytti svo kellingar á brúninni innan við vegriðið.

Ég hélt eitt augnablik að þetta væri mitt síðasta og ákvað að hjóla fram af brekkubrúninni og ofan í skóginn sem þar er fyrir neðan. Þar endastingst ég og fæ hjólið í hausinn en hjálmurinn bjargaði mér. Um leið heyri ég að bíllinn skellur niður og stöðvast.

Ég brölti á fætur og upp á stíginn aftur. Þar er strax komin kona sem hafði stöðvað bíl 11738034_10153255066364230_7148283233851351816_nsinn og stokkið á vettvang. Hún er farin að rýna inn í bílinn sem þarna stóð á réttum kili þversum á stígnum þar sem ég hafði verið að hjóla.

Bensín lekur úr bílnum og hann er allur mjög krambúleraður og greinilega ónýtur. Rúður eru brotnar og hliðarrúðan farþegamegin fram í maski þannig að við sjáum ökumanninn, stúlku sem varla hefur haft ökuprófið lengi. Við hlið hennar í sætinu liggur snjallsíminn. Ég hugsa, var hún á netinu? Eða að senda SMS? Á þaki bílsins sést að hann hefur farið eina veltu og strokist við mold og möl.

Hringt er í 112. Stúlkan situr stjörf undir stýri og hreyfir sig varla fyrst í stað. Lítið samband næst við hana en hún er greinilega með meðvitund og virðist ekki slösuð. Fólk drífur að, lögreglan kemur og sjúkrabíll. Bílstjórahurðin er opnuð og stúlkan kemur út. 11059787_10153255066449230_8057591603416081736_nHún brotnar saman. Viðurkennir að hafa verið í símanum.

Engin bremsuför sjást á götunni. Stúlkan hefur ekki áttað sig fyrr en hún tekst á loft. Rétt fyrir ofan er hringtorg. Hún hefur komið út úr hringtorginu og beygt niður Naustaveginn, farið þá að fikta í símanum horfið á braut í huganum.

Ég segi lögreglu sögu mína. Hjóla svo í áttina heim. Hjólið virðist í lagi og ég sjálfur. Sjálfsagt marinn einhvers staðar en ekkert sem þarf að nefna. Hitti á leiðinni dóttur mína og frænku hennar sem er í heimsókn. ,,Horfði hún ekki á myndbandið,“ spyr hún sem tók bílpróf fyrir einu ári. Ökunemum er sýnt myndband um hættuna af því að nota síma í akstri. Það virðist ekki hafa hrifið á þessa ungu stúlku sem þarna rétt slapp við að kála tæplega fimmtugum hjólreiðamanni.

Sit nú heima og geri nokkuð sem ég geri sjaldan, að skrifa um sjálfan mig á Facebook. Svona nokkuð kemur ekki fyrir mig á hverjum degi sem betur fer.“

Miðja