Forsíða Húmor Ölvaður maður í Keflavík STAL kettlingi og hélt honum í gíslingu –...

Ölvaður maður í Keflavík STAL kettlingi og hélt honum í gíslingu – Haltu á ketti hvað þetta er skrýtið!

Það er ekki mjög oft sem við Íslendingar lendum í málum þar sem einhverjum er haldið í gíslingu – en haltu á ketti hvað Keflvíkingar eiga skrýtna sögu.

Það kom fram í frétt á Visir.is að lögreglan á Suðurnesjum hafi verið kvödd að húsnæði í Keflavík – en þar hafði ölvaður karlmaður stolið kettlingi.

Karlmaðurinn kom inn í herbergi til kattaeigandans sem átti kettlinga. Eftir að hafa fengið að halda á einum kettlingnum, greip hann kattaæði, því hann tók litla skottið inn í annað herbergi og neitaði að afhenda það aftur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Kattaeigandinn vissi að það væri ekki á allra færi að smala köttum – og hringdi því á lögregluna. Hann sagði maður hefði ekki keypt köttinn í sekknum heldur stolið honum af sér – og væri kettlingurinn nú fastur í bóli bjarnar.

Lögreglan lét ekki segja sér þetta tvisvar og mætti á staðinn áður en allt færi í hund og kött.

Fulli karlinn með kettlinginn var ekki par sáttur þegar laganna verðir mættu á staðinn. Sá ölvaði hvessti klærnar og hvæsti á lögregluna, svo það dugðu engin kettlingatök, en hann afhenti lögreglumönnum þó litlu kisuna að lokum.

Eftir að lögreglan hafði náð að berja köttinn úr tunnunni, var maðurinn áfram eins og grár köttur, og neitaði að fara að fyrirmælum lögreglu sem á endanum setti á hann ól og færði á lögreglustöð.

Kettlingur úti í Keflavík, setti upp á sig stýri, úti er ævintýri.