Forsíða Hugur og Heilsa Magnús ætlar að opna vefsíðu til þess að hjálpa þeim sem glíma...

Magnús ætlar að opna vefsíðu til þess að hjálpa þeim sem glíma við þunglyndi og kvíða

„Mér datt þetta í hug þar sem ég á sjálfur erfitt með kvíða. Mig langar að gera þetta auðvelt og aðgengilegt fyrir alla“.


11130185_1045268395486573_5289444033168860434_nMagnús Máni Hafþórsson er 18 ára gamall nemandi í Menntaskólanum við Sund en er að vinna að aukaverkefni sem er jafnvel enn meira spennandi en skólagangan.

„Ég vildi búa til síðu þar sem fólk getur opnað sig og tjáð sig um kvíða og þunglyndi eða almenna vanlíðan. Hvort sem það er nafnlaust eða undir nafni. Síðan myndi líka hafa að geyma miklar upplýsingar um sjúkdómanna og hvernig er hægt að takast á við þá“.

Magnús sem er eins og áður sagði aðeins 18 ára gamall hefur áður sett upp fatasíðuna ‘Dressed.is’ þar sem hann vildi bjóða fólki af báðum kynjum upp á að selja notuð föt á sérútbúnni íslenskri fatasíðu.

„Ég fékk hugmyndina þar sem ég á sjálfur erfitt með kvíða og mig langaði að sjá hvernig fólk tæki í þessa hugmynd“.

Magnús spurði kynbræður sína í fésbókarhópnum ‘Sjomlatips’ hvað þeim fyndist og viðtökurnar stóðu ekki á sér og hlaut hann einróma lof fyrir hugmyndina.

„Ég mun hafa samband við fagaðila sem munu vonandi geta hjálpað mér við að gera síðuna eins hjálplega og mögulegt er. Auk þess vonast ég til þess að fá til dæmis sálfræðinema með mér í lið sem gætu svarað spurningum eða skrifað pistla.

Hugmyndin er að hafa miðilinn opinn þar sem fólk getur haft samskipti sín á milli og búið til þræði. Deilt reynslusögum og fengið skoðanir eða ráð frá öðrum. Ég vil hafa notendaviðmótið eins frjálst og hægt er svo fólk getur stjórnað því hvort það birti greinar undir nafni eða ekki, hvort athugasemdir verði leyfðar og fleira“.

„Ég vonast til þess að setja síðuna í loftið 24. maí. Mig langar bara að gera hana eins auðvelda og aðgengilega fyrir alla og ég mögulega get, með bestu kveðju Magnús Máni,“ sagði okkar maður að lokum.


 

Það verður spennandi að fylgjast með Magnúsi á næstu vikum og við á Menn.is óskum honum alls hins besta.