Forsíða Hugur og Heilsa Linda Rós var nærri búin að taka líf sitt – en sneri...

Linda Rós var nærri búin að taka líf sitt – en sneri blaðinu rækilega við

linda rósVið rákumst á þennan pistil frá Lindu Rós á lindaros.com sem er hvatning og áminning til okkar allra að það er alltaf von – sama hversu svart ástandið er orðið.

Ég fagna 5 ára afmæli í dag! Nýja ég er 5 ára í dag. 🙂

Þennan dag fyrir 5 árum lenti ég á botninum. Ég fór upp í sumarbústað, setti gasofninn í gang og ætlaði að sofna svefninum langa. Vá hvað ég var glöð þegar ég lagðist niður! Ég get í alvörunni ekki lýst tilfinningunni en þetta er ein besta tilfinning sem ég hef fundið fyrir. Ég var búin að þrá þennan dag mánuðum saman – í raun árum og áratugum saman.

Ég var smám saman með árunum búin að færast nær botninum og hafði ákveðið haustið 2008 að gera lokatilraun til að ná mér upp úr þunglyndinu með hjálp geðlæknis en hafði annars ákveðið dánardagsetningu mína – 4. janúar 2009. Geðlæknirinn stóð sig augljóslega ekki í stykkinu – ekki frekar en allir aðrir læknar 7 árin á undan. Svo þarna í janúar 2009 var komið að langþráðu stundinni. En heilinn er merkilegt fyrirbæri og þar sem gas tekur ótrúlega langan tíma að virka þá tókst heilanum að taka algjöran viðsnúning, frá því að vera hoppandi kátur yfir síðustu stund sinni í að láta mig hætta við allt saman.

En þessi dagur markar sem sagt skil í lífi mínu. Ég ákvað að þetta gengi ekki lengur og breytti lífi mínu. Hætti í rúmlega 8 ára sambandi og flutti heim til mömmu í nokkra mánuði og fór svo að búa ein í fyrsta skipti á ævinni og hef gert það síðan. Hætti að vinna og fór að vinna í sjálfri mér. Ákvað að ég gæti ekki lifað svona lengur og ákvað að leita allra ráða til að ná bata. Ákvað að setja mig og mína heilsu í fyrsta sæti sama hvert álit annarra yrði. Þarna fæddist ný Linda, Linda Rós 2.0.

Það tók mig 27 mánuði, frá þessum örlagaríka degi, að ná mér upp úr þunglyndinu. Upp úr um 20 ára þunglyndi. Margt átti sinni þátt í því eins og lesa má á síðu minni Leið mín að bata – sem ég hvet alla til að renna yfir. En 36 heimsóknir í ræktina á 30 dögum, þar sem ég tók 26 þolæfingar til að kýla upp púlsinn og 10 hot yoga æfingar komu mér loksins á réttu brautina og upp fyrir þunglyndisskýin!

En gleðin varði stutt í það skiptið, í einn mánuð en þá datt ég niður og var niðri í um 7 mánuði. Jebb gauramál *dæs*. Geðheilsan stóð mjög völtum fótum á þessum tíma, nýbúin að ná mér upp og þurfti tiltölulega lítið til að kýla mig niður aftur. Náði mér svo upp og var uppi í um 10 mánuði, datt þá niður í um 2. Jebb gauramál aftur *dæs*. Maður mætti halda að maður lærði af reynslunni. En þetta gerði mér samt gott. Ég lærði afskaplega mikið af þessu niðurferðum, þroskaðist mikið, varð sterkari einstaklingur og náði betra andlegu jafnvægi þegar ég loks náði mér upp aftur.

Ég skipulagði margoft á þessum tímabilum að binda enda á líf mitt og var m.a búin að velja 4. janúar 2011, 4. janúar 2012 og 4. janúar 2013. En í seinni tvö skiptin náði ég mér upp fyrir jólin og engar frekari tilraunir hafa verið reyndar.

Ég er búin að vera réttu megin í rúma 12 mánuði núna! Allt árið 2013! Hvern einasta dag! Ekki vottur af dauðalöngun! Þrefalt húrra fyrir því! 2013 er fyrsta þunglyndislausa árið síðan ca 1990, jafnvel lengra aftur. Enda tók ég mér karlmannspásu megnið af árinu 2013! Jebb maður lærir af reynslunni! Líka orðin margfalt sterkari einstaklingur. Jeij! 🙂

Ef ég hefði vitað þá allt sem ég veit í dag þá er ég handviss um að ég hefði náð bata mikið mikið mikið fyrr. Og ég er algjörlega handviss um að ég hefði ekki náð mér upp úr þunglyndinu ef ég hefði ekki farið að stunda þolæfingar. Ef ég finn að ég er að detta niður þá fer ég í ræktina á hverjum einasta degi þar til ég næ jafnvæginu aftur.

Þetta hefur verið langt ferðalag en þetta hefur svo verið þess virði. Ég er svo sátt með lífið og tilveruna og sjálfa mig – og sjálfri mér algjörlega nóg.

Ferðalaginu er engan veginn lokið, ég er í besta andlega jafnvægi lífs míns en veit að með því að rækta líkama og sál þá nær maður alltaf betra og betra jafnvægi. Svo ég ætla bara að halda áfram ferð minni og njóta hverrar mínútu. Betrumbæta sjálfa mig og halda áfram að rækta líkama og sál svo lengi sem ég lifi!

Ég hef reglulega uppfært mig á þessum 5 árum – þegar ég hef náð nýjum hæðum í andlegri, líkamlegri eða félagslegri heilsu. Ég uppfærði síðast í Linda Rós 7.0 í nóvember 2012. Þarf að finna nýja hæð í einhverju til að uppfæra í 8.0!

Ég get varla lýst muninum á gömlu Lindunni og nýju Lindunni. Í grunninn er þetta sama manneskjan en það tók tíma að endurforrita heilann og fá hann til að framleiða réttu efnin til að Lindan fengi að stíga upp úr skítnum og skína!

Ég þorði aldrei neinu og gerði aldrei neitt. Í dag lifi ég svo spennandi lífi. Ég er félagslega virkari á góðri viku núna en á heilu ári áður fyrr! Og þetta eru ekki ýkjur. Ég vinn hlutastarf á frístundaheimili sem er mjög gefandi starf en kannski ekki það sem ég ætla að gera til lengdar en er mjög ánægð þar í bili þar til ný tækifæri gefast. Ég byrjaði að dansa á síðasta ári og dansa salsa, bachata, west coast swing og chachacha. Mis góð samt *hóst* en dansinn er eitt það besta sem hefur komið fyrir mig og á stóran part í því hve gott árið 2013 var! Ég stunda ræktina, göngur og fjallgöngur. Á fullt af vinum og kunningjum og dugleg að fara á allskonar viðburði, fyrirlestra og námskeið og fara út fyrir þægindahringinn!

Ég er þakklát stelpurófa.

*hoppa* klappa* og *skríkja af gleði*