Forsíða Hugur og Heilsa Íslenskar stelpur breyta myndunum sínum – „Þetta gefur ótrúlega ranga mynd“

Íslenskar stelpur breyta myndunum sínum – „Þetta gefur ótrúlega ranga mynd“

„Sléttari og glansandi húð, stærri augu og varir, mjórra andlit, engar freknur eða bólur, dekkri maskari, varalitur, öðruvísi litur á augum og burt með baugu, augnpoka og hrukkur“!

Það er ekkert leyndarmál að útlit og tíska spila stórt hlutverk í okkar daglega lífi. Þá sérstaklega hjá unga fólkinu.

„Það hefur aldrei skaðað neinn að líta vel út,“ er setning sem kann að hljóma eðlilega – En í dag erum við komin á það stig að útlitsdýrkun er orðin hættuleg.

Átröskun, steranotkun, öfgafullur megrunarkúrar og fleira eru dæmi sem við höfum öll heyrt áður. Á síðustu árum hefur svo bæst við fjöldi tilfella þar sem þekktar Hollywoodstjörnur eru „gripnar“ við að photoshoppa myndirnar sínar.

Það nýjasta í dag eru smáforrit fyrir snjallsíma sem „hjálpa“ viðkomandi að líta „fullkomlega“ út með sambærilegri tækni og Photoshop. Forritið er á topp 15 lista yfir mest sóttu smáforritin á Íslandi.

2015-02-24_11-10-20 hildurphotoshop

Við ræddum við fegurðardrottninguna, Tönju Ýr Ástþórsdóttur um þessa nýju tækni.

Það er hægt að gera allt með forritinu:

„Með forritinu er hægt að slétta húðina og gera hana flottari. Hún sýnist jafnvel vera smá blörruð líka. Hægt er að stækka augu og varir. Gera andlit mjórra. Taka freknur og bólur, gera maskara dekkri, breyta lit á vörum og augum. Fjarlægja baugu, augnpoka og allar hrukkur“.

„Mér finnst þetta gefa ótrúlega ranga mynd. Stelpur og þar með talið ég sjálf, hafa séð myndir af öðrum stelpum og husgað með sér, „hvernig getur hún verið með svona fullkomna húð?“

Svarið er photoshop. Eða að minnsta kosti tækni sem breytir myndum og hjálpar (aðallega) stúlkum að líta „fullkomlega“ út á aðeins nokkrum mínútum.

2015-02-24_11-43-29
Hér sýnir Tanja hvernig appið virkar ef hún breytir forsíðu myndinni sinni á Facebook. Hún hefur meðal annars gert húðina sléttari og fjarlægt allar hrukkur.

 

En taka ekki allir eftir þessu?

„Að mínu mati er þetta orðið aðeins of ýkt, myndirnar eru orðnar rosalega mikið breyttar. Þetta snýst ekki lengur um að taka eina bólu í burtu sem „var að skemma myndina“ heldur eru stelpur að grenna á sér andlitið eða breyta á sér nefinu, svo dæmi séu tekin“.

Tanja segir þetta ekki snúast um það hvernig stelpur líta út fyrir stráka heldur hvernig skilaboð þær senda til annarra stúlkna,

„Þetta snýst í ekki um það hvernig stelpur eru í augum stráka heldur hvaða ímynd stelpur eru að senda öðrum (mögulega yngri) stelpum.

Hver og einn er fallegur á sinn hátt og við ættum að vera eins og við erum,“ sagði Tanja Ýr að lokum.