Forsíða Lífið Gústi Hollywood spjallaði við BRITNEY Spears – MYNDIR

Gústi Hollywood spjallaði við BRITNEY Spears – MYNDIR

Leikarinn Ágúst Bjarnason, sem oft er nefndur Gústi Hollywood, spjallaði við Britney Spears í Las Vegas fyrir nokkru.

Á markmiðalistanum að fá mynd með Britney
„Það eru orðin þó nokkur ár síðan ég var formaður aðdáendaklúbbs Britney í Háskólanum í Reykjavík og skrifaði niður það markmið að fá mynd með henni. Þá var mikið hlegið en þetta gekk allt upp og nú er markmiðalistinn að tæmast hratt.“ segir Gústi.


Britney og Felicia Cullotta

Baksviðs með aðstoðarkonu Britney
„Ég hitti Feliciu Cullotta baksviðs á Piece of Me tónleikum Britney í Las Vegas. Felicia hefur verið helsta aðstoðarkona Britney síðan Britney hóf ferilinn 17 ára. Við Felicia náðum vel saman og ræddum mikið um Ísland. Hún hefur áhuga á að koma hingað í heimsókn og fékk símann minn ef hún skyldi eiga leið til landsins. Hver veit nema Britney verði með í ferðinni?“ segir Gústi og hlær. 

Gústi og Felicia – aðstoðarkona Britney

„Felicia fór með mig hring baksviðs þar sem ég fékk að sjá hvernig sviðið er sett upp og skoðaði búningaherbergið hennar Britney. Það var alveg magnað að sjá þetta bakviðs og ég laumaðist til að kíkja út í sal þegar fólk var byrjað að streyma inn á tónleikana. Þessir tónleikar fá 5 stjörnur og það eru hundruðir starfsmanna sem vinna í kringum Britney svo allt gangi upp.“

Gústi baksviðs fyrir utan búningaherbergi Britney Spears

„Þegar fer að líða að tónleikunum eru allir gestir og gangandi baksviðs reknir út af risavöxnum lífvörðum Britney. Ég fékk að vera áfram baksviðs ásamt örfáum öðrum sem vonuðust til að fá að hitta poppdrottninguna. Þegar Britney mætti á svæðið þá var svo stór hópur lífvarða í kringum hana að ég sá næstum ekki neitt og varð að sjálfsögðu vonsvikinn.“


Gústi sá rétt glitta í Britney á leið inn í búningsherbergið 

„Svo kom í ljós að Britney tekur örfáar myndir áður en hún fer á svið og þar er svona lítið ljósmyndasvæði sem er alveg lokað. Felicia fylgdi mér þangað og ég heyrði í Britney tala við þann sem var á undan mér. Þá fór stressið í hámark og ég spurði Feliciu hvort hún kynni endurlífgun ef það skyldi líða yfir mig. Hún sagði mér að hafa engar áhyggjur því Britney er hin ljúfasta.“

„Loksins var komið að því að hitta átrúnaðargoðið og gekk ég upp að Britney sem heilsaði fallega. Ég sagðist vera frá Íslandi og hún sagði ble, ble, ble, nice, ble, ble, ble… og spurði mig svo að einhverju – en ég var svo stressaður að ég gat hvorki hlustað né talað. Hún greip þá utan um mig og benti mér í rétta átt þar sem gamla markmiðinu úr HR var náð – mynd með Britney Spears.“

Gústi og Britney Spears að spjalla í Las Vegas

„Þetta er svo sem ekki merkileg saga en fyrir mikinn aðdáenda eins og mig þá var þetta stórkostleg upplifun sem gleymist aldrei. Ef fólki gefst færi á að hitta átrúnaðargoðin sín þá mæli ég eindregið með því að fólk grípi tækifærið.“

MYNDBAND: Þróun Britney Spears í gegnum árin