Forsíða Lífið Guðmundur er einhleypur – en skrifaði þessa ómótstæðilegu auglýsingu fyrir sjálfan sig!

Guðmundur er einhleypur – en skrifaði þessa ómótstæðilegu auglýsingu fyrir sjálfan sig!

guðmundur garðarGuðmundur Garðar Gíslason sagði að faðir sinn hefði kvartað yfir hjúskaparstöðu hans – eða eins og hann segir á Facebook síðu sinni:

Í fyrra gerði ég heiðarlega tilraun til að auglýsa eftir konu til undaneldis að sérstakri ósk föður míns sem þá hafði miklar áhyggjur af hjúskaparstöðu minni. Það er skemmst frá því að segja að sú auglýsing bar ekki tilskyldan árangur. Líklega voru kröfurnar full miklar og því hef ég ákveðið að snúa þessu við í ár:

Og í þetta skiptið gerði hann auglýsingu sem getur bara ekki annað en virkað. Hún hljómar svona:

Maður á fertugsaldri óskar eftir ábyrgum eiganda. Um er að ræða rauðhærðan og freknóttan mann, en það eru þó ekki hans einu kostir. Til gangs er hann hjólbeinóttur og útskeifur en þrátt fyrir það mikill dansari. Matgrannur og almennt ódýr í rekstri. Hann er að mestu uppalinn yngstur hjá einstæðri móðir ásamt þremur eldri systrum sem gerir hann einstaklega vel undirbúinn fyrir langar búðarferðir og þaulæfðan í hvers konar bið eftir kvenfólki. Óþroskaður húmor og almennur einfaldleiki gerir honum kleift að umgangast börn og tengjast þeim á jafningjagrundvelli.

Hann er menntaður rafvirki og því nothæfur til almenns viðhalds á heimilinu. Einnig er hann menntaður og starfandi lögfræðingur og því almennt snyrtilegur til fara og vel að máli farinn. Auk þess er hann furðu heiðarlegur þrátt fyrir lögfræði menntun. Engin formleg greining hefur farið fram á honum en óhætt að segja að hér sé um að ræða lúða, eða nörd, en samt töff lúða. Kann á þvottavél og tekur fyrirmælum vel.

Í grunninn er um utanbæjareintak að ræða sem þarf sinn skammt af hreinu lofti. En hefur aðlagast Reykjavík með ágætum og ekkert því til fyrirstöðu að hafa hann þar áfram.
Mjög einfalt er að hafa ofan af fyrir honum. Einnig stendur til boða að senda hann út á land í styttri tíma til upprunalegs eiganda.

Tilboð óskast í PM. Hlusta á öll boð.

Kv
Guðmundur Garðar Gíslason
rafvirki og lögfræðingur

Deilist að vild.