Forsíða Hugur og Heilsa Guðlaug: „Síðan hvenær urðu kíló mælikvarði á hamingju?“

Guðlaug: „Síðan hvenær urðu kíló mælikvarði á hamingju?“

10891971_10153147397837716_2253006951821756422_nútlistsdýrkun nútíma samfélags gengur stundum alveg um þverbak. Vigtin virðist ráða sjálfstraustinu hjá mögum og heilsuvöru iðnaðurinn veltir milljörðum á ári hverju.

Hér er pistill frá Guðlaugu Þorsteinsdóttur, nema í íþróttafræði við háskóla Reykjavíkur um dýrkun samfélagsins á þyngdartapi og kílóa dýrkun.

„Hægt og rólega virðist sem samfélagið í heild sinni sé að viðurkenna kílógröm sem marktækan mælikvarða á hamingju og lífsgæði einstaklinga. Hvernig þá? Á hverjum einasta degi eru fréttir í fjölmiðlum um einstaklinga sem að hafa misst allt frá 5 kílóum og að einhverjum tugum kílóa. Það er vissulega frábær árangur, sérstaklega fyrir þá einstaklinga sem voru í yfirþyngd áður en að þyngdartapið hófst. Það sem truflar pistlahöfund eru yfirlýsingarnar sem fylgja með, þær eru iðulega í þessum dúr:

-Missti 10 kíló og upplifði áhuga frá hinu kyninu
-Missti 15 kíló og fékk aukið sjálfstraust

-Missti x kíló og upplifði hamingju á ný

Flestar þessar fréttir koma síðan inn á það að einstaklingurinn sem náði þessum árangri breytti mataræði og fór að hreyfa sig. Ég borða hollan mat og hreyfi mig mjög reglulega en ég er ekki að fara að missa einhver kíló, sennilega vegna þess að ég hef iðulega verið í kjörþyngd og lifað heilbrigðu lífi. En get ég þá ekki upplifað eins mikla hamingju og þeir sem þurftu að breyta til? Jú algjörlega! Mér finnst að samfélagið í heild sinni mætti aðeins fara að hugsa út fyrir rammann. Hamingja og lífsgæði einstaklings eru ekki metin út frá kílógrömmum. Kílógrömm eru einfaldlega kraftur sem eðlisfræðingar nota til að mæla tog massa við jörðu (ekki mín deild, enda er ég ekki eðlisfræðingur). Hamingja og lífsgæði mælast mun frekar í litlu hlutunum sem að við viljum svo oft gleyma.

Ég met lífsgæðin mín út frá því að:

-Ég hef liðleika til þess að getað reimað skóna mína
-Ég þarfnast ekki lyfja útaf lífstílssjúkdómum
-Ég lifi verkja lausu lífi (svona að megninu til, en ég er ekki kvalin alla daga, hugsanlega einn til tvo daga í mánuði upplifi ég sársauka)
-Ég hef þol og styrk til þess að getað leikið við frændsystkini mín þegar að mig langar.
-Ég mæðist ekki við að hlaupa upp stiga og ég kvarta ekki yfir því að þurfa að leggja bílnum mínum í stæðið sem er lengst frá húsinu, nema þegar það er rigning, ég hata rigningu.

Ég er ekki að reyna að draga úr þeim vaxandi vanda sem að offita er, ég er einfaldlega að benda á þá litlu hluti sem að við gleymum oft að horfa á. Hamingjan er ekki endilega falin í kílóum, hún er frekar fólgin í því að líða vel með sjálfan sig. Hreyfing og hollt mataræði er alltaf af hinu góða. Við þurfum ekki þessar öfga yfirlýsingar.

Ef að þú getur reimað skóna þína, hlaupið upp stiga án þess að mæðast, hjálpað til í flutningum, leikið við börnin þín eða hundinn þinn, lifir verkjalausu líf, þarfnast ekki lyfja vegna lífstílssjúkdóma. Yfir hverju ertu þá að kvarta? Haltu áfram þínu striki og brostu framan í heiminn. Það eru ekki allir eins heppnir og þú að komast svona léttilega í gegnum daginn.

Guðlaug Þorsteinsdóttir.
nemi í íþróttafræðum við Háskólann í Reykjavík.“

Lumar þú á á hugaverðum pistli? Sendu okkur hann á [email protected] og við gætum birt hann á síðunni.