Forsíða Lífið Frásögn íslensks bráðatæknis sem reyndi að bjarga lífi stúlku sem sprautaði sig...

Frásögn íslensks bráðatæknis sem reyndi að bjarga lífi stúlku sem sprautaði sig – mun skilja þig eftir með kökk í hálsinum

Stefnir Snorrason bráðtæknir lýsti á Facebook síðu sinni hvernig hann reyndi að bjarga stúlku – eftir að hún hafði tekið of stóran skammt af læknadópi. Þetta er frásögn sem ristir djúpt – og skilur mann eftir með kökk í hálsinum.
Þetta á ekki að þurfa að gerast.
Hinn fagri heimur fíkniefna, með mínum augum.

Talstöðin mín pípir hátt og segir…hlauptur, hlauptu ! Augasteinar mínir víkka því ég heyri að ljóminn í augum þínum er að minnka. Hurðin rennur hratt upp meðan ég ég set bílinn í gang og bláu ljósin á. Hurðin virðist samt fara of hægt. Hjartað mitt slær hraðar þegar ég heyri alvarleikann í röddinni sem segir mér hvert ég skal halda….Röddin sagði mér hvað þú værir ung og að þú værir að fara. Vélin er þaninn og dekkin grípa malbikið föstum tökum. Skildi ég ná til þín áður en þú ferð ? Ég tek stórsvig milli bíla sem skilja ekkert hvað er í gangi og afhverju mér liggur svona á. Sírenan mín hágrætur fyrir þig rétt eins og litla systir þín sem situr nú ein í herbergi sínu því hún var sett þangað í allri ringulreiðinni. Hún er óstöðvandi og með ekka. Hún skynjar að eitthvað mikið er að, en bara veit ekki hvað.

Ég hleyp inn til þín og mæti konu í andyrinu sem er afmynduð af sorg. Hún er öskrandi af sársauka. Ég skynja að þetta er móðir þín. Hörmungin í andrúmsloftinu er svo yfirþyrmandi að hún er nær áþreifanleg, svo þykk að hún kæfir mann. Ég held áfram upp stigann, hvert á ég að fara ? Ég renn beint á óhljóðin sem er meiri grátur og ekkasog. Það kemur frá stóra bróður þínum sem stendur við hurðina á herberginu þínu. Hurðin stendur opin. Þú liggur á gólfinu líflaus og föl. Það liggur notuð sprauta úti við hurðina og tómt pilluglas…..við lesum á glasið….læknadóp. Ég finn lyktina í herberginu þínu er ég geng inn, hún er blanda af ilmvatni, áfengi, sígarettu, ælu og saur. Pabbi þinn er með símann sinn á hátalara. Ég heyri Neyðarvörðinn á hinum endanum vera leiðbeina honum á meðan hann hnoðar á þér bringuna: „28-29-30“, svo blæs hann af lífi sínu í þig. „Elskan mín. Elskan mín!“, segir hann stöðugt. Honum er alveg sama þó hann finni bragðið af ælunni þinni, því að elska hans til þín er sterkari en dauðinn. Bringan þín lyftist við hvern blástur, en ekkert gerist. Ég tek við af honum og heyri hann ganga út úr herberginu í angist. Hann er vonsvikinn og reiður en veit ekki út í hvað eða hvern. Tilfinningar hans eru í lausu lofti.

Ég hnoða og hnoða. Ég hleð stuðtækið. Tónninn úr því yfirgnæfir allt rétt áður en ég gef hjarta þínu rafstuð: „Allir frá !“, er kallað. Enginn snertir þig meðan þú kippist til á gólfinu er hjartað fær rafstuð. Félagi minn tekur við og hnoðar áfram á meðan fólkið mitt reynir að finna æð hjá þér til að setja nál í svo að lyfin okkar nái þér kannski til baka. En æðarnar þínar eru svo skemmdar og fersk nálarför þvælast fyrir okkur. Ég bora því beint í beinið á þér til að gefa þér lyf til lífs, en þú svarar því ekki. Ég hugsa með mér: „Hvað í veröldinni ertu búin að koma þér út í unga stúlka ?“

Aftur kippistu til þegar annað stuð er gefið. Pabbi þinn og bróðir fylgjast með okkur úr dyragættinni en þeir geta ekki lengur horft upp á þetta. Ég set túpu ofan í hálsinn þinn til að anda fyrir þig því þú andar ekki sjálf. Ég gef þér lyf og stuð, lyf og stuð en ekkert virðist virka. Nú eru börurnar okkar komnar og við setjum þig á þær. Áður en við vitum af ertu komin í bílinn okkar. Við erum lögð af stað á Bráðamóttökuna. Það er vonin sem rekur okkur áfram. Ég læt vita að þú sért að koma. Það tekur stuttann tíma að keyra, en hann er samt svo langur.
Fleiri hurðir opnast og skært ljós tekur á móti þér í herberginu þar sem fólkið klæðist hvítu og grænu. Allir leggjast á eitt að ná þér úr klóm sjarmörsins sem þú heillaðist svona af…..en þetta kvöld hélt hann þér of fast og vildi bara ekki sleppa. Hann var orðinn ástfanginn af þér því þú gafst honum of lengi undir fótinn. Hann einn vildi eiga þig til eilífðar. Þú tókst ekki mark á því að hann væri sjálfelskur og eigingjarn. Þú vildir ekki heyra að hann er ógeðslegur Eltihrellir.
Hávær tónninn sem fylgir flatri línu á stórum skjá heyrist stöðugur þegar augu okkar mætast, Augu allra þeirra sem reyndum allt til að bjarga þér. Við höfum tapað… Færasta fólkið og heimsins besta tækni er ekki eins kröftug gegn dauðanum og þitt : „Nei.“ En það sorglega er að þú sagðir „Já.“

Lítið tár rennur á hvarmi er við sjáum dyrnar að lífi þínu lokast. Þrúgandi andrúmsloftið fylgdi okkur öllum þinn síðasta spöl. Ég fékk kökk í hálsinn þegar ég sá að móðir þín féll á hné eins og litlaust laufblað að hausti og bróðir þinn reyndi að grípa hana. Þegar ég sá föður þinn bugaðann er hann sökk inn í heim efasemda og vonleysis. Þetta dimma kvöld sá ég líka er dauðinn gekk í burtu eftir ganginum, þessi sem þú gafst síðasta dansinn þinn. Hann gekk í burtu frá þér og studdist við ljáinn sinn. Ég sá að hann stoppaði fyrir framan litlu systir þína. Hann glotti eins og falskur sjarmör er hann starði í döpruð augun og rétti út hönd sína til hennar á meðan hann hvíslaði að henni….. „Dansaðu við mig, dansaðu.
Ég vona svo heitt að hún minnist þín og segi „Nei.“

 

Deilum þessu til vina og ættingja. Svona á ekki að þurfa að gerast.