Forsíða Afþreying Einstæð íslensk móðir með samviskubit yfir djamminu sem hún ætlaði ekki á...

Einstæð íslensk móðir með samviskubit yfir djamminu sem hún ætlaði ekki á …

Við fengum sendan pistil í gegnum Facebook-síðu Menn.is – en þar er ung móðir sem vildi koma frá sér einu sem hefur verið að plaga hana.

Ég veit ekki hvað það er sem dregur mig í það. Mér finnst að eitt skipti ætti að vera nóg til að fatta það. Aftur og aftur finn ég mig samt í þessum sömu aðstæðum. Það er eitthvað smá djamm í gangi með vinkonunum. Ég fer út, ætla ekki að fá mér mikið, fæ mér svo meira en ég ætlaði, kem heim 3-4 um nóttina og vakna svo þunn um morgunin.

Ekkert af þessu er kannski eitthvað vesen (já ég gerði þetta oft fyrir nokkrum árum) nema núna á ég barn. Ég get reddað pössun nokkuð auðveldlega en það fylgir sjaldanst pössun daginn eftir. Enda myndi ég ekki vilja það. Ég er því komin eldsnemma á fætur að sjá um barnið mitt – verandi drulluþunn. Ég held það sé eitt af því glataðasta sem ég geri og býð barninu mínu upp á. Glataðasta sem ég býð mér upp á.

Barnið veit auðvitað ekkert nema að það er að reyna að leika og hafa gaman. Loksins þegar við höfum tíma saman um helgar. En nei ég er eins og draugur, skapfúl og pirruð og sama hvað ég vil vel, þá bitnar ástand mitt á barninu mínu. Ég er ekki eins tilbúinn að hlusta á það – vera til staðar og leika. Ég gríp þá í iPadinn bara og reyni að láta hann taka álagið af mér.

Að vera þunn mamma sem vonast til að barnið endist í iPad svo hún geti hvílt sig – er ekki aðstæður sem ég vil upplifa. Samt gerist það aftur og aftur … og vonandi bara með því að skrifa þetta get ég bara drullast til að hætta þessu – og sett barnið mitt í fyrsta sætið.