Forsíða Lífið BDSM á Íslandi hefur gefið út yfirlýsingu vegna Hatara!

BDSM á Íslandi hefur gefið út yfirlýsingu vegna Hatara!

BDSM á Íslandi var að gefa út yfirlýsingu og það er greinilegt að það er vegna umræðu sem hefur skapast í kjölfarið á sigri Hatara og búningavali barna á öskudaginn.

Skilaboðin eru skýr – það er ekkert til sem heitir BDSM klæðnaður.


Það er ekkert til sem heitir BDSM klæðnaður.

Svartur klæðnaður, í bland við leður og gadda, getur vissulega verið vísun í vald og kúgun í vestrænni menningu. Svartur hefur löngum verið litur yfirvalds, lögreglu og dómara og því vekur hann upp hughrif um hörku og kalt viðmót. Gaddar og leðurólar ýkja þessi hughrif. Þessi klæðnaður er þó ekki síður notaður af jaðarsettum hópum, sem einhvers konar uppreisn eða merki um andóf gegn þeim mjúku, pastellituðu samfélagsfjötrum sem í raun halda okkur öllum niðri. Pönkarar, þungarokkarar og gotharar eru dæmi um hópa sem nota þessi tákn, hver gerir þau að sínum á einhvern hátt og merkingin er misdjúpstæð eins og gengur.
Börn eru hrifnæm og eru fljót að máta sig við allt í menningunni sem vekur athygli þeirra. Það er ekkert nýtt og ekkert ljótt, bara börn að vera börn. Við fullorðna fólkið eigum ekki að gera börnum upp kynferðislegar hvatir. Fyrir þeim eru Hatarabúningar ekkert annað en Hatarabúningar alveg eins og Súpermannbúningar eru Súpermannbúningar. Það eina sem gæti hugsanlega skaðað þau í sambandi við þetta væri ef einhver sem þau taka mark á bregst dæmandi eða harkalega við og kemur inn hjá þeim skömm sem þau skilja ekkert í, því þau hafa ekki þessa kynferðislegu tengingu. Mannssálin mótast af viðmóti annarra en ekki klæðnaði eða fylgihlutum. Það að klæða sig í leðurgalla eða latexsamfesting gerir mann ekki sjálfkrafa að BDSM-manneskju. Maður verður ekki slökkviliðsmaður við það eitt að fara í slökkviliðsbúning.

Við neitum því ekkert að margt BDSM-fólk hefur mikla ánægju af því að klæða sig upp í búninga sem hafa einhverja merkingu fyrir það og þá gjarnan að einhverju leiti kynferðislega. Fjölmargir upplifa sig kynþokkafyllri en ella í t.d. leðri, latexi eða vinnufatnaði. Enn aðrir hafa hreinlega blæti fyrir ákveðnum gerðum skófatnaðar, regnfatnaði eða blúndum svo eitthvað sé nefnt. Þetta á alltsaman heima undir svartri og glansandi regnhlíf BDSM alveg eins og margt annað mun sérkennilegra. BDSM snýst um svo margt annað en að klæða sig í búning. BDSM snýst um samskipti fólks og gengur út á að finna fegurð, nánd og innileika með því að sættast við og jafnvel deila sínum dýpstu og skrýtnustu kenndum. BDSM snýst um að vera maður sjálfur á fordómalausan hátt. BDSM snýst um að vera ekki hræddur við að vera viðkvæmur og berskjaldaður og því gengur það í eðli sínu út á traust. Það að leika sér með táknmyndir sem einhverjir tengja við illsku, gerir mann ekki illan eða hatursfullan. Að dæma fólk illt fyrir slíkt er mun nær því að vera alvöru hatur.

Miðja