Forsíða Húmor ATHUGIÐ – Veðurviðvörun fyrir höfuðborgarsvæðið fimmtudaginn 14. júní!

ATHUGIÐ – Veðurviðvörun fyrir höfuðborgarsvæðið fimmtudaginn 14. júní!

Okkur þykir ástæða til að vara íbúa höfuðborgarsvæðisins við veðrinu sem gæti ríkt fimmtudaginn 14. júní næstkomandi. Ef Veðurstofan hefur rétt fyrir sér er ástæða til að óttast.

Í kortunum bendir allt til að skýjahjúpurinn sem hefur umlukið svæðið frá því elstu menn muna –  gæti horfið. Þetta leiðir til þess að ekkert verður til að skýla höfuðborgarbúum frá risastórri stjörnu sólkerfisins. Hitinn sem þessu fylgir getur orðið að tveggja stafa tölu – sem er það mesta sem gerist á plánetunni. „Óbærilegt“ er eina orðið sem lýsir ástandinu.

Líkt og sjá má er þetta grafalvarlegt ástand sem ekki má taka of léttvægt. 

Nokkur ráð til að lifa daginn af:
1. Forðist beint augnsamband við stjörnuna. Hún gæti gert ykkur blind.
2. Þeir sem eru utandyra gætu fundið fyrir einkennum á húðinni – ekki ólík þeim sem fylgja því að halda hönd fyrir ofan heita hellu. Slíkt getur leitt til roða.
3. Hringingar gætu borist frá vinum sem vilja „nýta veðrið“ – Ekki svara slíku. Þeir eru líklega með óráði.
4. Nágrannar þínir gætu brugðist við með því elda matinn sinn utandyra á því sem kallast grill. Ekki láta glepjast af lyktinni. Borðið dósamat.
5. Öruggast er að finna gluggalausan kjallara á meðan ástandið ríkir – og slíta sig úr sambandi.

Þeir sem ekki fylgja þessum reglum gætu endað á að fá sólsting – sem er alvarlegt einkenni sem gerir fólk ekki ólíkt uppvakningum. Sjúkdómur sem er óvíst að hægt sé að lækna – og leiðir að öllum líkindum til dauða.

Fyrir þá sem ná að þrauka daginn – þá mun allt komast í vanalegt horf á laugardaginn. Rétt í tæka tíð til að horfa á Ísland Argentínu í rigningu í Hljómskálagarðinum.Óskum ykkur alls hins besta þennan erfiða dag. Guð blessi Ísland.

 

Miðja