Forsíða Lífið Ætli Októberfest Háskóla Íslands verði BANNAÐ eftir kvartanir Vesturbæinga?

Ætli Októberfest Háskóla Íslands verði BANNAÐ eftir kvartanir Vesturbæinga?

Vesturbæingar eru ekki sáttir við Októberfest Háskóla Íslands – og ef að kvartanir þeirra verða teknar alvarlega þá er mögulegt að 2018 verði síðasta skiptið sem þetta verður haldið.

Ágætu svefnvana nágrannar í Vesturbænum,

Októberfest Stúdentaráðs Háskóla Íslands hefur enn eitt árið truflað næturró mikið í hverfinu okkar og Þingholtunum að auki. Þrátt fyrir fögur fyrirheit formanns SHÍ í Vesturbæjarhópnum í gær um sátt og samlyndi og aðgerðir til að draga úr látunum – og skaplegri hávaða fram eftir gærkvöldinu, reyndar – var hávaðinn eftir miðnætti orðinn sá sami og á fimmtudagskvöldinu. Og við eigum þriðja kvöldið inni.

Ég tel kominn tíma til að grípa til aðgerða. Þetta snýst í mínum huga ekki um það, eins og áberandi hefur verið í umræðum hér, hvort stúdentar eigi skilið eða megi skemmta sér – megi þau mín vegna skemmta sér sem allra best á háskólaárunum. En það breytir því ekki að það má ekki vera á kostnað næturfriðs þúsunda annarra nótt eftir nótt. Stutt er síðan Norræna húsið hélt upp á 50 ára afmælið með útitónleikum að kvöldlagi á sama stað af fullri tillitssemi. Þetta er vel hægt.

Októberfest SHÍ hefur vaxið hratt á síðustu árum. Við erum sem sagt komin með stóra útihátíð í túnjaðarinn með öflugum hljóðkerfum og háværu tónleikahaldi. Slík hátíð á ekki heima í íbúðarhverfum nema þá hugsanlega að þess sé gætt að hljóðstyrk sé stillt í hóf og skemmtun sé lokið fyrr en nú er.

Ég hvet því alla sem vilja að eðlileg og lögbundin næturró sé virt í hverfinu okkar til að láta í sér heyra. Hér eru nokkrar uppástungur að farvegi fyrir kvartanir:

Stúdentaráð. SHÍ er óneitanlega meðvitað um ónæðið og hefur þegar fengið kvartanir sem skiluðu þessari sáttfúsu færslu frá formanninum hér í gær. En betur má ef duga skal. Elísabet Brynjarsdóttir heitir formaðurinn og hefur þegar gefið færi á sér á þessum vettvangi til að taka við hávaðakvörtunum. Sendið henni skilaboð.

Reykjavíkurborg. Borgin gefur leyfi fyrir þessari hátíð og tímanum sem hún stendur. Þau hafa sem sagt leyfi þaðan til að vera að til eitt á virku kvöldi og til þrjú um helgarnætur. Það er mjög hentugt að senda borginni skilaboð á Facebook: https://www.facebook.com/search/top/?q=reykjav%C3%ADkurborg en annars er síminn 411 11 11.

Háskóli Íslands. Háskólinn stendur ekki beint fyrir hátíðinni en hún fer fram á lóð skólans og Stúdentaráð er vissulega undir hatti skólans og er væntanlega styrkt af skólanum að einhverju leyti. [email protected] eða sími 525 4000.

Heilbrigðiseftirlitið. Þangað má tilkynna hávaða sem talinn er vera yfir lögbundnum heilsufarsmörkum. [email protected] eða í síma 411 11 11.

Lögreglan. Auðvitað má svo alltaf hringja í 112 vegna hávaða sem truflar svefnfrið að næturlagi.

Ég er sjálf búin að hafa samband á nokkra af þessum stöðum. Vonandi láta sem flestir í sér heyra. Það borgar sig stundum að kvarta – víðar en á samfélagsmiðlum.